Eitt það besta við tímann þegar haustið og veturinn eru að ganga í garð er þegar þú getur sest upp í sófa og hjúfrað þig undir hlýtt teppi með góða bók í höndunum á meðan vindurinn nauðar fyrir utan gluggann, kannski með bolla af heitu kaffi eða súkkulaði til að ylja sér með. En hvaða bók á að velja? Ef þú ert ævintýra- og fantasíuunnandi ættu þessar bækur að vera eitthvað fyrir þig.

Children of Bone and Blood

Children of Bone and Blood eftir Tomi Adeyemi er ný bók gefin út í mars 2018 og fær 5 stjörnur á metsölulista New York Times. Hún fjallar um Zélie Adebola, unga stelpu frá Orïsha, eftir að töfrarnir hverfa úr landinu þeirra. Hún hefur aðeins eitt tækifæri til þess að bjarga töfrum landsins og rísa upp gegn konungsveldinu sem er að reyna að útrýma töfrum og iðkendum þeirra. Hún leggur því á flótta undan krónprinsinum og þarf, með hjálp prinsessunnar, að fóta sig um hættur Orïsha.

Hrafnsauga, Þriggja heima saga 1

Ef Þú ert ekki fyrir að lesa bækur á ensku þá er hér íslensk bókasería sem hefur fengið mjög góða dóma. Skráð sem barnabók fyrir 6-12 ára er Hrafnsauga, fyrsta bók Þriggja heima sögu, engu að síður góður lestur fyrir lengra komna. Hún fékk Íslensku barnabókaverðlaunin og Bóksalaverðlaunin sem besta táningabókin árið 2012.

Bókin gerist næstum þúsund árum eftir að myrkraöldin leið undir lok. Fólk lifir sínu lífi óttalaust og er flest búið að gleyma myrku tímunum. Sirja, Ragnar og Breki, ásamt hinum krökkunum í þorpinu, eru að njóta síðustu sumardaganna sem börn og eru að búa sig undir innvígsluhátíðina þar sem þau munu fá að vita hvað þeirra hlutverk er í framtíðinni. En í skuggunum fara fornu öflin sem hrundu af stað myrkraöldinni að bærast á ný og Sirja, Ragnar og Breki dragast inn í leyndardóma, forna þekkingu og ráðabrugg sem þau vita ekkert um.