Forrest Carter

Asa Earl Carter fæddist í Alabama árið 1925 og skrifaði undir nafninu Forrest Carter. Hann var meðlimur í sjóher Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni og var um tíma leiðtogi Ku Klux Klan stjórnmálaflokks. Hann var aðskilnaðarsinni og bauð sig fram til landstjóra í Alabama árið 1970. Eftir að hafa tapað þeim kosningum flutti hann til Texas, skipti um nafn og gerðist rithöfundur. Hann skrifaði bókina Uppvöxtur Litla Trés og gaf hana út sem ævisögu sína, en það kom síðar í ljós að hún var það alls ekki heldur var hún skáldsaga. Þrátt fyrir uppruna Forrest Carters er bókin vel þess virði að lesa. Hún er hugljúf, sorgleg, gleðileg og allt þar á milli.

Uppvöxtur Litla Trés

Uppvöxtur Litla Trés var fyrst gefin út árið 1976. Hún fylgir lífi ungs drengs, fimm ára að aldri, eftir að hann missir foreldra sína. Afi hans og amma, bæði Cherokee indíánar, taka hann að sér og ala hann upp. Þau búa uppi í fjöllum ásamt öllum þeirra hundum, lifa af náttúrunni eins og þau geta og kenna Litla Tré indíánasiði, hvernig eigi að lifa af landinu og hvernig eigi að búa til viskí, sem afi hans, Wales, selur í litlu búðinni í bænum sem er næst þeim. Það er þó frekar langur gangur að komast þangað og er afinn stórstígur, svo Litla Tré á erfitt með að fylgja honum eftir.

Yfirvöld í ríkinu þvinga afa og ömmu Litla Trés til þess að senda hann í heimavistarskóla, en hvorki starfsfólk né nemendur við skólann eru mjög skilningsrík um indíánauppeldi Litla Trés og náttúrulöngun hans. Eftir nokkra mánaða vistun er honum bjargað og hann fær að fara aftur heim til afa og ömmu.

Bókin var send í aðra prentun og gefin út í kilju og varð gríðarlega vinsæl seint á níunda og snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Forrest Carter fékk aldrei að sjá vinsældir bókarinnar, en hann lést árið 1979. Bíómynd var gerð eftir bókinni og frumsýnd árið 1997.