Úr bók í mynd

Árið 1990 var gefin út bókin Jurassic Park eftir Michael Crichton. Hún naut mikilla vinsælda og endaði það með því að Universal Pictures og Amblin Entertainment keyptu réttinn að myndinni sem var svo frumsýnd árið 1993. Myndinni vegnaði alveg ótrúlega vel og er hún tólfta á listanum yfir gróðamestu myndir í heiminum til dagsins í dag.

Bíómyndin frá 1993

Myndin gerist á eyjunni Isla Nublar þar sem vísindamaðurinn John Hammond (leikinn haf Richard Attenborough) er að opna Risaeðluskemmtigarð. Eftir atvik í garðinum sem endaði með dauða starfsmanns biður Hammond þrjá vísindamenn um að koma í heimsókn í garðinn svo þeir geti skoðað og skrifað undir að garðurinn sé í lagi og öruggur til opnunar. Vísindamennirnir Alan Grant, Ellie Sattler og Ian Malcolm eru öll hissa þegar þau fá að vita hvað á að sýna í garðinum – risaeðlur.

John Hammond sýnir þeim sjálfur húsið, meðal annars rannsóknarstofuna þar sem risaeðlueggin eru klakin út og hvaðan blóðsýnin eru tekin. Hann ætlar svo að senda þau þrjú, ásamt barnabörnunum sínum tveimur sem líka eru í heimsókn á eyjunni hjá honum, í skoðunarferð um garðinn. Til þess eru notaðir tveir bílar á sporum sem keyra um garðinn svo hægt sé að skoða risaeðlurnar.

En ekki er allt með felldu í garðinum. Inni í tölvuveri garðsins slekkur forritarinn Dennis Nedry á öllu tölvukerfinu í garðinum, þar með talið rafmagninu, svo hann geti smyglað út sýnum af risaeðlunum til manns sem vill eigna sér vinnuna sem John Hammond gerði. Þegar rafmagnið er farið af garðinum er ekkert sem heldur risaeðlunum í búrum sínum lengur og fara þær að brjótast út og leggja líf gesta í garðinum í hættu. Þau þurfa öll að hjálpast að við að koma rafmagninu aftur í gang og komast svo úr garðinum og halda þannig lífi, allt á meðan þau eru hundelt af risastórum mannætum um allan garðinn.