BRAS: Barna- og ungmennahátíð austurlands

BRAS

Fyrsta barna- og ungmennahátíð Austurlands var haldin í september 2018. Hún var nefnd BRAS og fékk einkunnarorðin Þora! Vera! Gera! Hún fór fram í menningarmiðstöðvum á Austurlandi og var lögð mikil áhersla á að börn fengju að taka virkan þátt í smiðjum sem voru í boði á hátíðinni ásamt því að þau fengu að njóta listarinnar sem verið var að sýna. Smiðjur voru haldnar fyrir öll leikskóla- og grunnskólabörn á Austurlandi vikuna 3. – 7. september og svo var opnunarhátíð á laugardeginum 8. september haldin á þremur stöðum. Afrakstur smiðjudaganna var svo sýndur á Eskifirði, í tónlistarskólanum, þar sem Daði Freyr steig svo á svið fyrir gestina.

Ritlist

Ein af smiðjunum sem í boði voru fyrir grunnskólabörn Fjarðarbyggðar í tengslum við menningarhátíðina var ritlistarsmiðja. Rithöfundurinn og ritstjórinn Markús Már Efraím kynnti ritlistina fyrir börnunum, en hann segir ritlist og önnur list sé gríðarlega mikilvæg fyrir börn, en hún getur gefið þeim rödd og stað til þess að tjá sig á annars staðar en þau eru vön. Mörg barnanna sem hafa verið í smiðju hjá honum segjast ekki kunna að skrifa sögur og þau fái engar hugmyndir, en nokkrum mínútum síðar eru þau komin á fullt við skrif.

Aðdragandi hátíðarinnar

Að sögn Signýar Ormarsdóttur hefur hugmyndin að hátíðinni verið í umræðunni á Austurlandi í nokkurn tíma, en nú hefur hátíðin loks fengið að blómstra og er hún vonandi komin til að vera. Austurbrú hefur umsjón yfir verkefninu í samstarfi við meðal annars Skólaskrifstofu Austurlands og Menningarmiðstöðvum víðs vegar á Austurlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem menningarhátíð hefur verið haldin í heilum landshluta í einu, en í Reykjavík er haldin árleg barnamenningarhátíð og þó nokkur sveitafélög hafa fylgt á eftir. Mikil áhersla hefur verið hjá ríkinu undanfarin ár að auka listir og menningu fyrir börn í landinu og hefur það meðal annars leitt til verkefnisins List fyrir alla.