Heimsókn til Austurlands

Hvernig á að komast þangað?

Það getur verið langt að fara til Austurlands frá Reykjavík, en ferðin hefur þó orðið mun styttri en hún var hér áður fyrr. Aksturinn tekur um 8 tíma frá Reykjavík til Egilsstaða, en einnig er hægt að fljúga með Air Iceland Connect, en þá er ferðin ekki nema um klukkutími. Svo er auðvitað hægt að nota Strætó og rútuferðir með rútufyrirtækjum.

Hvað er hægt að gera?

Sumar

Á sumrin er tilvalið að njóta útiverunnar. Þá er til dæmis tilvalið að fara í ýmsar fjallgöngur og er úr mörgum skemmtilegum göngum að velja víðsvegar á Austurlandi. Fyrir ofan veginn milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar er hægt að ganga á Völvuheiði þar sem völva er talin vera grafin og að hún passi upp á bæina. Svo er hægt að fara að skoða Hengifoss fyrir ofan Lagarfljót. Hann hefur nýlega verið mældur sem annar hæsti foss á landinu og er gönguferðin að fossinum vel þess virði að fara í.

Vetur

Ekki er síðra að heimsækja Austurland á veturna. Reyndar er ekki hægt að fara í sömu gönguferðir og á sumrin, en veturinn býður upp á annað skemmtilegt. Ef útivera er málið er hægt að finna slatta af skíðasvæðum sem vert er að heimsækja, þar á meðal Oddskarð sem er stærsta skíðasvæði Austurlands og er talið vera eitt besta skíðasvæði landsins. Það er staðsett í fjöllunum fyrir ofan Reyðarfjörð. Svo er líka hægt að heimsækja skíðasvæðið í Stafdal fyrir ofan Seyðisfjörð og er stuttur akstur þangað frá flugvellinum á Egilsstöðum.

Allt árið um kring

Hvort heldur sem þú ert á ferðinni á sumrin eða veturna er alltaf gaman að kíkja á sundlaugarnar á svæðinu. Hægt er að finna sundlaug í nánast hverjum einasta bæ á landinu og Austurland er engin undantekning. Þar er hægt að finna góða laug til að synda í og heita potta sem hægt er að sitja og njóta í. Hér er eitthvað fyrir alla.