Uppvöxtur

Þegar börn eru lítil læra þau af þeim sem eru í kringum þau. Ef þau eru hunsuð þegar þau gráta læra þau að hætta og sjá um sig sjálf, ef þeim er veitt athygli og þeim sýnd góðmennska læra þau að brosa og gráta að vild. Að sama skapi læra þau að tala með því að hlusta, með endurtekningum og að herma eftir. Ein af bestu leiðunum til þess að kenna börnum tungumálið sitt er að tala við þau og lesa fyrir þau.

Lestraráhugi

Lestraráhugi hjá börnum vaknar ekki af sjálfum sér heldur þarf að hjálpa honum að blómstra. Ein besta leiðin til þess að kveikja í lestraráhuganum er að lesa fyrir börn frá unga aldri. Ekki bara er það frábær leið til þess að leyfa áhuga barna á lestri að vakna heldur er þetta líka frábær stund með börnunum sem hjálpar til við að mynda góð tengsl við þau og þær stundir sem gefast með þeim ætti að njóta á meðan færi gefst til.

Læsi

Lestur á bókum, hvort heldur sem er lestur fyrir börnin eða börnin séu að lesa sjálf, hjálpar þekkingu þeirra á tungumálinu að vaxa og þroskast. Með því að byrja snemma að lesa fyrir börnin og tala við þau um lesefnið erum við að stuðla að því að bæta orðaforða hjá börnunum okkar og auka málþroska. Það hjálpar við stafsetningu, málfræði, orðaforða, sögubyggingu, það örvar félagslegan þroska barna og margt fleira.

Lestur

Þegar sest er niður með barni og það fær að sjá bókina sem verið er að lesa fyrir það sér það ekki bara myndirnar heldur stafina líka. Það fer að sýna þeim áhuga og fer að vilja vita hvernig þeir hljóma, hvaða orð þeir eru að mynda og hvað það þýðir. Að lesa fyrir börnin hjálpar þeim einnig við að byrja að lesa fyrr sjálf og auka þar með enn frekar skilning þeirra á rituðu og töluðu máli.