Hvenær á að byrja að lesa fyrir barnið mitt?

Það getur verið erfitt að vita nákvæmlega hvenær eigi að byrja að lesa fyrir börnin. Þegar þau eru nýfædd sofa þau um 16 klukkutíma á sólarhring og þegar þau eru vakandi virðast þau ekki skilja mjög mikið af því sem gerist í kringum þau – og er það nokkur furða? Heimurinn er svo nýr fyrir þeim. En þrátt fyrir þetta er bara fínt að lesa fyrir þau þegar færi gefst til. Þau fá tækifæri til þess að tengjast foreldrum sínum nánari böndum og þau læra að þekkja raddirnar þeirra betur.

En hvað á að lesa?

Það er ekki alltaf augljóst hvað eigi að lesa fyrir lítil börn. Ef verið er að lesa fyrir ungabörn skiptir það ekki öllu máli af því að þau skilja ekki orðin ennþá. Það þarf bara að finna einhverja bók sem gaman er að lesa og byrja svo. Þegar lesið er fyrir þau ung er það ekki til þess að þau fái að heyra sögur, heldur raddir og orð.

Þegar börn verða nokkurra mánaða gömul og fara að bregðast meira við þeim orðum, sem eru sögð við þau, þarf að fara að huga að því að lesa bækur fyrir þau þar sem þau geta tekið meiri þátt í lestrinum. Auðvitað er ennþá gott að lesa litlar barnabækur fyrir þau, en eitt það besta sem hægt er að gera er að finna bók með stökum orðum og myndum sem hægt er að nota til þess að kenna þeim ný orð.

Nokkrar uppástungur

Skemmtilegu smábarnabækurnar eru bækur gefnar út af Forlaginu. Þetta er sería af bókum með sögum fyrir börn á aldrinum 0-5 ára, eða þar um bil. Þar er hægt að finna bækur eins og Litla bláa kannan, Dýrin á bænum og fleiri skemmtilegar sögur.

Þegar börn eru um fjögurra ára er svo alltaf gott að eiga stafabók, t.d. Stafakarlana eða Við lærum að lesa.