Hvenær á að kenna börnum að lesa?

Það er ekki alltaf augljóst hvenær það er best að byrja að kenna börnum að lesa. Það er þó líklega gott að byrja snemma því það hjálpar til við að vekja áhuga barnanna og forvitni þeirra og kveikir löngun til þess að læra sjálf að lesa. Þegar börn fara svo að sýna stöfunum í bókunum áhuga er góður tími til þess að draga fram bækurnar sem kenna stafina, bækur eins og Stafakarlarnir eða Stafaleikurinn. Þetta gerist gjarnan um fjögurra eða fimm ára aldurinn, en það er þó mjög mismunandi eftir börnum – enda eru börn eins mismunandi og þau eru mörg.

Stafakarlarnir

Stafakarlarnir er bók eftir Bergljótu Arnalds og var fyrst gefin út fyrir um 20 árum síðan. Hún segir frá Ara þar sem hann fer út á róló með eldri systur sinni. Hann sofnar undir tré og þá fara undarlegir hlutir að gerast – stafirnir fara að lifna við og segja honum Ara sögur sínar. Þannig kenna þeir honum og lesendum um stafina. Þetta er sígild bók sem kennir börnum að lesa á skemmtilegan hátt sem flestir krakkar hafa gaman af. Hver vill ekki heyra söguna um F sem á fána og er alltaf fjólublár í framan og fúll, eða litla Ð sem ekkert orð á?

Stafaleikurinn

Stafaleikurinn er bók eftir Huginn Þór Grétarsson og var gefin út af Óðinsauga árið 2014. Bókin er skrifuð sem leikur fyrir börn þar sem börn eru hvött til þess að finna orð sem byrja á einhverjum ákveðnum staf. Þannig læra börnin að þekkja hljóðin sem stafirnir gera og að hlusta eftir því hvernig orðin eru skrifuð. Þau læra þannig að lesa í gegnum leik í stað skólastunda sem getur gefið mjög góðar niðurstöður, sérstaklega hjá börnum sem læra betur með því að gera en að hlusta.